Það eiga allir að sjá Bowling for Colombine. Það eiga allir að sjá hvers konar vitfirring er í gangi í heiminum, hvað á sér stað í landinu sem er hin sjálfskipaða löggæsla hins vestræna, kristna heims. Það má segja að Bandaríkin einblíni of mikið á flísina í öðrum löndum en taka ekkert eftir bjálkanum sem er hægt og bítandi að berja Bandaríkjamenn niður í jörðina.
Þarna er verið að velta upp spurningunni: Af hverju? Af hverju eru framin svona mörg morð í Bandaríkjunum með byssu? Af hverju kaupa Bandaríkjamenn svona mikið af byssum? Af hverju gerist þetta ekki í öðrum samfélögum?
Michael Moore lætur sér ekki nægja að spyrja, hann vill svara þessari spurningu og svarið er: Ótti. Í Bandaríkjunum er alið á ótta. Borgarlífið er sett upp í fjölmiðlum sem hættulegt líferni svo að fólkið flykkist út í úthverfin til að vera öruggara. En það er bara ekki öruggt þar heldur af því að í öllum fjölmiðlum er óttinn alls ráðandi, slagsmál, árásir, rán og morð birtast myndskreytt í fjölmiðlum og það er hamrað ofan í fólkið að til þess að vera örugg eigi það að nýta sér stjórnarskrárbundin réttindi sín til að bera vopn. Svo að óörugga fólkið í úthverfunum fer og kaupir sér byssu í þeirri fullvissu að nú sé það öruggt, en næstu fréttir segja að nú sé örugga fólkið í úthverfunum farið að skjóta hvort annað. Og ennþá skilur enginn af hverju þetta gerist og enn fleiri hlaupa út í búð (eða banka!) og fá sér byssu til að geta nú verið öruggur í þessu hræðilega samfélagi þar sem allir eru að skjóta hvorn annan. Fattar fólk virkilega ekki geðveikina í þessu?
Myndin fer til Kanada, þar er byssueign mjög almenn, samt er Kanada með margfalt lægri morðtíðni af völdum skotvopna. Michael Moore skildi ekki hvernig þetta gat verið. Á 7 milljón heimilum af 10 milljón heimilum í landinu eru til skotvopn, samt er fólk í borgum Kanada ekki hrætt við að hafa útihurðina ólæsta. Fólk í Bandaríkjunum er yfirleitt með svona 3 lása á hurðinni hjá sér. Af hverju? Í Kanada er fjölmiðlaumhverfið allt annað en það í Bandaríkjunum. Það er ekki þessi ofuráhersla á ofbeldi og vopn. Gæti þetta ekki skýrt eitthvað?
Mér fannst mikið til í teiknimyndinni um sögu Bandaríkjanna sem er skotið inn í þessa mynd. Þar er farið í gegnum sögu hvíta mannsins í Bandaríkjunum og hvernig þeir hafa alltaf látið stjórnast af ótta. Annars er saga Bandaríkjanna ekki blóðugri en saga margra annarra ríkja, samt reynir Charlton Heston, formaður NRA, að bera fyrir sig þá afsökun að sagan afsaki þessa byssugleði Bandaríkjamanna þegar hann er spurður að því af hverju svona margfalt fleiri Bandaríkjamenn deyja af völdum byssuskota á ári hverju en aðrir. Það er bara þessi ótti. Óþarfur ótti um ósýnilegan óvin sem er búinn til til að selja meira, selja meiri vopn, selja meiri ótta og meiri vopn… Og á meðan alast börnin upp við neyslu á óttanum, þau sjá hann í hverju horni, hvert sem þau líta, skynja hann sem aflið sem knýr heiminn og þau vilja stjórna óttanum og þá gerist eitthvað í líkingu við Colombine.
Marilyn Manson kom út eins og hetjan í þessari mynd, segið það sem þið viljið en Marilyn Manson á mina dýpstu virðingu eftir að hafa séð þessa mynd, sjáið hana og þið skiljið af hverju. Vonandi. Farið bara og sjáið þessa mynd, ef hún rótar ekki eitthvað aðeins í ykkur þá hafið þið ekki snefil af mannlegum tilfinningum í ykkur og eigið skilið að verða skotin af byssuglöðum Bandaríkjamanni. Finnst mér ;)