laugardagur, mars 22, 2003

Júróbull...
Vááááá, ég held að ég þurfi að kveikja í augunum á mér!
Ég varð fyrir því óhappi áðan að vera að channel-hoppa og lenti á Rúv þar sem var verið að sýna myndbandið við vondasta júróvisjon lag allra tíma, en það heitir Open your heart með Birgittu Belju. Keizið var ekki heima til að baula á skjáinn með mér (sem er einkar skemmtilegur siður sem við tókum upp eftir að hafa lesið bloggið hjá Dark Bastard) svo að ég fálmaði í blindni eftir fjarstýringunni sem ég hafði misst út úr höndunum á mér þegar ég greip fyrir augu og eyru til að varna því að viðbjóðurinn næði að bora sér inn í vitund mína og tókst loks að skipta um stöð og lenti á VH1 (stöð fyrir staðnaða skallapoppara og miðaldra fólk sem var með sítt að aftan) og jafnaði mig með því að horfa á Behind the Music, 1987. Ég er rétt að byrja að jafna mig núna, eftir að hafa rúllað mig í fósturstellingu í sófanum og ruggað mér fram og til baka og sungið Enter Sandman upphátt í klukkutíma til að róa taugarnar. Ég gæti þurft áfallahjálp...

*hrollur*

föstudagur, mars 21, 2003

Ég segi mig líka úr Íslandi...!


Ég er sko búin að panta búsetu í fríríkinu hennar Keiz!

fimmtudagur, mars 20, 2003

Sannleikurinn?
Þú veist að heimurinn er af göflunum genginn þegar besti rapparinn er hvítur, besti golfarinn svartur, Frakkar ásaka Bandaríkjamenn um hroka og Þjóðverjar vilja ekki í stríð.
Stríðsbull...
Allt frá því að George Bush kom fram í sjónvarpi á mánudagskvöldið og sagði að það væru 48 tímar í stríð hafa fréttastofur um allan heim keppst við að búa til grafík og forrit og fréttavaktir og sviðsmyndir og slagorð fyrir væntanlegt stríð. CNN var t.d. með niðurtalningu á skjánum hjá sér og um leið og tíminn rann út kom alvarlegur fréttamaður á skjáinn og sagði: „The Iraqi deadline has passed, we now go live to Bagdad...” Og vitiði hvað var að gerast í Bagdad??? EKKI NEITT. En það á svosem eftir að breytast...
Rúv er líka með svakalega fréttavakt og beinar útsendingar frá BBC World, Stöð 2 sýnir bara beint frá CNN og mamma er brjáluð yfir því af því að það var ekkert Bold and the Beautiful í morgun!
Mér finnst eitthvað hræðilega morbid við það að horfa á stríð í sjónvarpinu. Beinar útsendingar frá því þegar Bandaríkjamenn sprengja saklausa borgara í tætlur er ekki beint það sem ég vil horfa á, þá horfi ég frekar á Raymond! Og ef þið vissuð það ekki, þá HATA ég Raymond með eldheitri ástríðu.

Mér finnst íslenskir ráðamenn líka hafa brugðist þjóðinni með því að styðja innrásina í Írak. Kannski halda þeir að við tökum ekki eftir því hvað hausinn á ríkisstjórninni er kominn langt upp í rassgatið á Bandaríkjunum en við vitum það alveg. Ísland er ekki hernaðarveldi, við eigum ekki að styðja stríðsaðgerðir Bandaríkjamanna eða fáránlega skilmála þeirra.

Punktur.

miðvikudagur, mars 19, 2003

Það er ekkert smá sem þessi Nirvana grein eftir Arnar Eggert Thoroddsen er að gera usla hjá mörgum rokkunnandanum þessa dagana. Skv Fréttablaðinu í dag er hann víst búinn að fá mörg ljót bréf frá gelgjustrákum á huga sem finnst að hann ætti að skjóta sig í hausinn. Gelgjustrákar á huga eru líka þekktir fyrir eitthvað allt annað en að leyfa fólki að hafa skoðanir sem þeir hafa ekki.
Ég verð nú að segja að ég er á nokkuð öndverðri skoðun við Arnar, mér finnst Nirvana vera mikið snilldar band og Nevermind er ein af mínum uppáhaldsplötum. Ef maður hugsar um það sem var í gangi í rokkheiminum á þessum tíma, það var í rauninni bara tímaspursmál hvenær eitthvað nýtt kæmi fram og þetta nýja var Grunge rokk. Glam rokk níunda áratugarins var í andarslitrunum, sveitir eins og Guns n Roses, Poison, Skid Row og hvað þær nú hétu allar voru að liðast í sundur hver á eftir annarri og underground tónlistin kraumaði undir dauðakippunum. Að lokum braust hún upp á yfirborðið í formi fjögurra hljóma sem mynduðu smellinn Smells like Teen Spirit og heimsbyggðin þagnaði, hlustaði og brjálaðist. Ég held reyndar að það hafi verið tilviljun sem réði því að það var Nirvana sem var þeytt fram í sviðsljósið sem leiðtogar grunge-sins en ekki t.d. Soundgarden eða Pearl Jam sem gáfu út mjög góðar plötur á svipuðum tíma. Kannski var það bara vegna þess að Nirvana menn sömdu einföld, grípandi lög með fáum hljómum á meðan Pearl Jam og Soundgarden voru með aðeins meiri pælingar og þyngri hljóm.
Engu að síður er Kurt Cobain enn þann dag í dag andlit 10. áratugarins og margir tónlistaraðdáendur, þeirra á meðal krakkar sem voru varla fæddir þegar hann dó, eru tilbúnir að útmála hann mesta tónlistarsnilling allra tíma (sbr. þegar lesendur Q völdu Nevermind bestu plötu allra tíma). Ég veit ekki alveg hvort ég er sammála því, en að mínu mati hafði Nirvana óumdeilanlega áhrif á tónlistarsöguna. Góð áhrif, því að gott, hrátt rokk komst loks upp á yfirborðið en slæm áhrif því að váááá hvað það kom mikið af leiðinlegu krappi í kjölfarið.

Amen.

þriðjudagur, mars 18, 2003

Jæja, Bubblan er vöknuð af dvala og ætlar að henda sér með miklum skell út í djúpa enda blogglaugarinnar og valda eins miklum usla og hún getur, stinga á samfélagskýlum og hneyksla allavega 58 manns með hræðilegu orðbragði og almennu skítkasti hingað og þangað um vefinn. Muhahahahhahahahah, passið ykkur bara, þið vitið aldrei hvað hún gerir næst...