föstudagur, mars 28, 2003

Ég bý á Íslandi og mér finnst hræðilegt að hugsa um stríðið í Írak. Salam býr í Írak og bloggar þaðan, honum finnst stríðið líka hræðilegt. Endilega lesið bloggið hans og sjáið hvað stríð er í raun og veru; sjáið hvað Írakar sjálfir hugsa um það...

fimmtudagur, mars 27, 2003

Símabull...


Ég er búin að eiga sama Nokia 3210 símann minn í 3 ár, sem verður að teljast ágætis endingartími miðað við marga aðra síma. Nú er ég hins vegar alveg að gefast upp á honum, enda vantar 5 línur á skjáinn, hann er eiginlega hættur að hlaða sig og á það til að deyja bara í miðju símtali án þess að láta nokkuð vita á undan. Sem er ekki gott. En núna er ég búin að finna hinn fullkomna arftaka hans, Nokia 3510 (sjá mynd), sem er mjög sætur. Það sem er aðallega fullkomið við 3510 gerðina er að hann er ódýr! Mig langar alveg í minni og flottari síma, en á meðan ég er blankasta beyglan í bænum kemur það víst ekki til greina, af því að minni símar eru alltaf dýrari. Mér finnst það svindl...

*andvarp*

miðvikudagur, mars 26, 2003

Útvarpsbull...
Ég er aftur farin að hlusta á útvarpið á morgnana eftir að hafa sleppt því í þessar tvær vikur sem ég var hjá Keizinu (vildi ekki vekja hana með hávaða og látum á svona ókristilegum tíma ;). Ég er ekki mikið fyrir málefnalegar umræður svona þegar ég stend á nærbuxunum fyrir framan spegilinn með úfið hár, svefnmyglu niður á tær og andardrátt sem gæti fellt fíl svo að ég hlusta bara á Zombie. Mér finnst alveg ótrúlegt hvað Sigurjón Kjartansson batnar við það eitt að fá einhvern til að bulla með sér, þátturinn hans var alveg við það að deyja drottni sínum vegna almennra leiðinda (ég var allavega hætt að hlusta) og svo kemur Doktorinn (sem er reyndar snillingur) og allt verður frábært. Ég gef þeim alveg hiklaust fjóra tannbursta af fimm fyrir snilldar morgunþátt...

Góðan dag...

þriðjudagur, mars 25, 2003

Skólabull...
Mig langar svo í skóla að ég er að deyja. Þetta byrjaði allt saman þegar ég fór inn á leit.is áðan og rakst þar á vef dagsins, sem í dag er vefur Háskóla Íslands. Svo að ég fór inn á vef Háskóla Íslands og uppgötvaði hvað mig langar rosalega mikið að fara að læra eitthvað og ákvað að tékka hvort það væri ekki möguleiki að taka nokkra kúrsa í fjarnámi á næstu önn. Og viljiði giska??? Það er ekki hægt að taka neitt í sálfræðinni í fjarnámi. Mér finnst það vera svindl og mismunun! Mig langaði til að verða H-skóla Bubbla og geta bubblað upp úr mér kenningum og rannsóknum og aðferðum og hugtökum...
Kannski ég fari bara og læri keramikmálun til að svala þessum lærdómsþorsta, það er ábyggilega jafngott og sálfræðigráða, er það ekki??

Class dismissed
Skattabull...

Mig langar svoooo mikið að gera svona:


mánudagur, mars 24, 2003

Óskarsbull...
Aldrei þessu vant horfði ég ekki á Óskarsverðlaunaafhendinguna sem fór fram í gærkvöldi. Óskarinn er búinn að vera fastur punktur í tilverunni hjá mér í mörg mörg ár og svo bara sofna ég á miðnætti í gær. Ég þori varla að velta þeirri hugsun fyrir mér að kannski er ég bara orðin of gömul til að vaka svona fram eftir. Það getur varla verið. Þetta tengist kannski frekar eitthvað ævintýrum helgarinnar (sem voru ekki merkileg, so don’t ask!) og misjöfnum svefni og svefnleysi undanfarnar vikur... Annars sýnist mér flest úrslitin vera alveg ásættanleg nema að ég er ekkert sátt við þetta Chicago dæmi. Ég er reyndar ekki búin að sjá Chicago, en í mínum huga get ég bara ekki séð að hún sé neitt betri eða merkilegri en Moulin Rouge, sem var algjörlega sniðgengin í helstu verðlaunaflokkunum í fyrra. Og svo er ég náttúrulega ekki alveg að fíla það að bestu mynd ársins, LOTR-The Two Towers var bara ýtt til hliðar, eins og hún væri annars flokks mynd eftir þriðja flokks has been leikstjóra. Ef The Return of the King fær ekki nokkra tugi tilnefninga á næsta ári til að bæta fyrir hinar myndirnar þá fer ég persónulega til Hollywood til að lemja þessa vitlausu ameríkana í hausinn með skóflu...

Blech...